Leita í fréttum mbl.is

Copy-paste af dv.is

10 ráð til að spara milljónir

Ekki er allt eins slæmt og það virðist, því margir eiga möguleika á að spara milljónir.

Ekki er allt eins slæmt og það virðist, því margir eiga möguleika á að spara milljónir.

Föstudagur 3. október 2008 kl 14:38

Höfundur: Ritstjórn DV (ritstjorn@dv.is)

Landlæknir, Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið vara við því að umfjöllun um kreppuna geti haft skaðleg áhrif á sálarlíf ungmenna, veikra og aldraðra. Skorað er á fjölmiðla að fjalla um lausnir jafnt og vanda. Af þessu tilefni birtir DV hér ráð til að þrauka af kreppuna með skynsamlegum sparnaði.

„Þetta er alvarleg umræða sem snertir unga sem aldna og þar af leiðandi er mikilvægt að vanda orðaval til að valda börnum, ungmennum, veikum og öldruðum ekki óþarfa kvíða... Mikilvægt er að fjölmiðlar og aðrir vandi þessa umræðu og hafi í huga að flutningur fregna af válegum atburðum er bestur ef jöfnum höndum er fjallað um lausnir vandans þannig að fólk geti brugðist sem best við,“ segir í yfirlýsingunni, sem undirrituð er af Kristni Tómassyni, yfirlækni Vinnueftirlitsins, Sigurði Guðmundssyni landlækni og Þórólfi Þórlindssyni, forstjóra Lýðheilsustöðvar.

Af þessu tilefni birtir DV 10 tillögur að aðgerðum sem geta sparað Íslendingum margar milljónir króna, eftir aðstæðum:

1. Leigðu frekar en að eiga - 4.000.000+
Nú þegar fasteignaverð fellur að raunverði og lán hækka minnst um 15 prósent vegna verðbólgu er hægt að spara margar milljónir á ári með því að leigja frekar en eiga. Íbúð sem keypt er nú á 27 milljónir króna mun fyrirsjáanlega leiða til tæplega fjögurra milljóna króna taps kaupandans. Dæmið er miðað við bestu fáanlegu lánakjör, íslenskt, verðtryggt lán. Dæmið gæti litið öðruvísi út með erlent lán, enda er ómögulegt að spá fyrir um þróun þess. Margir verktakar hafa boðið 95 prósent lán fyrir nýjum íbúðum. Sá sem gleypir við því horfir upp á að innan árs verður íbúðin að líkindum um 1,5 milljónum króna verðminni en upphæð lánsins, miðað við 27 milljóna króna verðmiðann. Því er leikandi hægt að spara fjórar milljónir króna ef leigt er frekar en keypt. Á sama tíma er leiguverð að lækka vegna offramboðs húsnæðis.

2. Losaðu þig við annan bílinn - 770.000+
Þær fjölskyldur sem eiga tvo eða fleiri bíla geta sparað hundruð þúsunda á ári með því að losa sig við aukabílinn og taka strætó í staðinn. Ef tekið er mið af bíl sem kostar 1,7 milljónir króna og er ekið 15 þúsund kílómetra á ári er rekstrarkostnaðurinn, sem fyrr segir, 770 þúsund krónur á ári. Þegar útreikningarnir voru gerðir kostaði bensínlítrinn einungis 139,5 krónur, en nú fer hann ekki undir 170 krónur.

3. Fáðu þér kreppubíl - 500.000+
Í stað þess að skipta út 2 ára gömlum bíl í nýjan er þjóðráð að fá sér kreppubíl. Kreppubíll fæst á lágu verði, oftast á bilinu 50 til 250 þúsund krónur. Óþarfi er að kaskótryggja slíkan bíl. Samkvæmt útreikningum FÍB kostaði 770 þúsund árlega að reka bíl sem kostaði 1,7 milljónir í janúar síðastliðnum. Rekstrarkostnaður bifreiða hefur reyndar snaraukist síðan þá. Af kreppubíl er afborgun engin, verðrýrnun nánast engin. Árlegur kostnaður þarf ekki að fara yfir 150 þúsund krónur. Því er auðvelt að spara hálfa milljón eða meira á því að skipta nýlegum bíl út fyrir kreppubíl. Þessir útreikningar gera ekki ráð fyrir gríðarlegri hækkun á lánum sem verður nú.

4. Geymdu bílinn og taktu strætó - 150.000
Jafnvel þótt ekki takist að selja bílinn sparast tæplega 150 þúsund á ári með því að láta hann standa. Strætókort sem gildir í þrjá mánuði kostar 12.700 krónur. Sparneytinn bíll sem eyðir 8 lítrum á hundraðið eyðir hins vegar rúmlega 50 þúsund krónum á þremur mánuðum í bensín. Þarna sparast tæpar 40 þúsund krónur, aðeins á þremur mánuðum. Sparnaðurinn er mun meiri yfir árið.

5. Eigðu en skuldaðu ekki - 46.000+
Ef tekið er einfalt dæmi af 100 þúsund krónum sést hversu mikilvægt er að eiga frekar en að skulda. Sá sem skuldar 100 þúsund á yfirdrætti borgar af þeim tæplega 25 þúsund krónur á ári í yfirdráttarvexti. Sá sem á hins vegar 100 þúsund inni á verðtryggðum reikningi græðir á móti ríflega 21 þúsund krónur, ef binditíminn er stuttur. Þarna munar 46 þúsund krónum, aðeins á einu ári. Auðvitað er erfiðasti hjallinn að borga upp skuldina, en það borgar sig.

6. Hættu að reykja - 200.000+
Ef þú reykir pakka á dag eyðirðu 216 þúsund krónum á ári í það. Það jafngildir því að vinna þrettánda mánuðinn á árinu til að eiga fyrir því. Hjón sem reykja þrjá pakka saman á dag eyða 677 þúsund krónum í sígarettur á ári. Hjón sem nota nikótíntyggjó á hverjum degi í eitt ár eyða 182 þúsund krónum í tyggjó á ári. Við það sparast 495 þúsund á ári og þau losna nánast við öll eiturefnin sem í sígarettunum eru.

7. Farðu ekki á barinn - 108.000+
Venjulegt verð á hálfslítra bjór á bar í Reykjavík er 700 krónur. Ef þú drekkur fjóra bjóra á viku eyðirðu í það 11.200 krónum mánaðarlega. Jafnmikill bjór kostar aðeins rúmlega þrjú þúsund krónur ef hann er keyptur í ríkinu og drukkinn í heimahúsi. Árlegur sparnaður af þessu jafngildir hvorki meira né minna en 108 þúsund krónum í þessu hóflega dæmi.

8. Afpantaðu greiðsluseðla - 15.000
Hægt er að spara yfir 15 þúsund krónur með því að sleppa því að fá greiðsluseðla senda heim til sín. Sú ákvörðun viðskiptaráðherra að afnema seðilgjöld gladdi Íslendinga. Fyrirtæki tóku þá upp á því að skíra gjöldin eitthvað annað. Það tekur ekki meira en hálftíma að losa sig við seðlana. Gert er ráð fyrir að maður fái að meðaltali fimm seðla heim til sín í mánuði hverjum. Farðu svona að. Finndu reikningana þína. Athugaðu hvar er að finna seðilgjöld, tilkynningargjöld, endurnýjunargjöld og útskriftargjöld. Hafðu samband við fyrirtækin og farðu fram á að reikningarnir fari eingöngu í gegnum heimabankann.

9. Fylltu frystikistuna
Nú þegar matvælaverð hækkar gríðarlega er tími til að spá í matarkostnaðinn. Farðu í Bónus einu sinni í viku og kauptu eins mikið og þú getur. Skoðaðu tilboð, kauptu og frystu. Eyddu einni kvöldstund í að skoða uppskriftir og ákveða matseðil fram í tímann. Fólk sem vinnur mikið lendir í því að þurfa að versla í dýrari búðunum eftir að lágvöruverslunum hefur verið lokað. Laugardagar geta verið innkaupadagar. Lambaskrokkar af nýslátruðu, blóðmör, lifrarpylsa og svínakjöt eru á góðu verði þessa dagana. Og úti um allt má finna tilboð á magnkaupum.

10. Kauptu íslenskan mat
Tími nýsjálenskra nautalunda og humars er búinn og tími hinna íslensku afurða er runninn upp. Með hruni krónunnar verður sífellt hagkvæmara í samanburði við annað að kaupa íslenskt. Hagkvæmt er að kaupa niðurskorna lambaskrokka, hluta af skrokkum, frosið slátur á tilboði eða á sláturmarkaði. Krónan auglýsti nýlega lambaskrokk á 769 krónur kílóið. Sá sem kaupir 6 kílóa skrokk sem bútaður er niður í hluta borgar því fyrir það rúmar 4.600 krónur. Svo kaupir hann 6 kíló af frosnu slátri í Bónus og borgar fyrir það um 2.400 krónur. Að lokum kaupir hann tvo svínabóga sem eru þrjú kíló hvor um sig á tæpar 3 þúsund krónur. Þá er hann kominn með máltíðir sem duga fjögurra manna fjölskyldu í um mánuð. Samhliða þessu er hægt að nýta uppskeru haustsins. Afurðir eins og kartöflur, gulrætur, rófur og blómkál má vel nýta í haustsúpur.

Tekið af http://www.dv.is/frettir/2008/10/3/10-rad-til-ad-spara-milljonir/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Solveig Pálmadóttir
Solveig Pálmadóttir
Business-legally-blond og rekur ferðaþjónustufyrirtækið Óbyggðaferðir ehf ásamt Unnari Garðarssyni. Viðskiptalögfræðingur frá Háskólanum á Bifröst 2006. Einnig hárgreiðslumeistari og þriggja/fjögurra stráka móðir og hundaeigandi.

242 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband