Leita í fréttum mbl.is

Jarðskjálfti

Skrifaði þetta 30.maí daginn eftir skjálfta.

. 232Um morguninn fór ég með Hrafni í skólaferðalag á Snæfoksstaði, veðrið var mjög fallegt og rosalega gaman. Ekki grunaði manni hvað biði manns seinna um daginn.

Ég sat í rútunni og skoðaði Ingólfsfjall á leiðinni en ekki ætla ég að færa á blað hugsanir mínar því þær eru lyginni líkast. Eitt er á hreinu að einhver hélt verndarhendi yfr mér þennan dag því fjallið ætlaði ég að ganga upp þegar kæmi heim.

 Jarðskjálfti

. 263Ég var að keyra frá Eyrarbakka þegar ósköpin dundu yfir, var til móts við Sandvíkurbæina og var að tala við Hannes í símanum sem staddur var í Nóatúni. Ég var nýbúin að hringja á skólavistun til að láta vita að ég myndi sækja Hrafn kl 4 þannig að hann ætti ekki að labba heim, ég helt fyrst að hefði hvellsprungið á bílnum eða einhverjar stýrisfestingar gefið sig og hendi frá mér símanum í gólfið. Mér rétt tókst að halda bílnum á veginum og stoppa, fer út og geng hringinn í kringum hann, en sé jafnframt að bíllinn fyrir framan mig stoppar líka, ég hélt hann væri að stoppa því hefði séð bílinn minn hendast milli vegarhelminga. Þá heyri ég ofboðslegar drunur og lít á Ingólfsfjall og sé að það stendur í rykmekki og það miklum. Þá átta ég mig á´því að þetta var allsvaalegur jarðskjálfti og sé að bílar undir fjallinu eru að stoppa, þar var víst Eyjólfur bróðir minn staddur og var næstum búin að missa Volvojeppann út af veginum. Ég hendist aftur inn í bíl og bruna að manninum fyrir framan mig og við tölum saman nokkrar sekúndur um að þetta hljóti að hafa verið mjög stór skjálfi.

Fyrsta sem manni dettur í hug eru börnin, kærastinn, Cobra og heimilið en ég hafði nýkvatt Guðmund þar sem hann var uppá þaki á Eyrarbakka, ég hringi í Hannes strax aftur og hann segir að fólk hafi hlaupið út úr Nóatúni, vörur hrunið og skilti. Fyrir utan sé fólk í áfalli og einhver ælandi. Ég bruna strax heim þar sem það er í leiðinni til að sækja Cobru sem var ein heima, greyið litla skalf og skalf, setti hana í ólina úti á meðan ég fór inn að kanna skemmdirnar sem voru þónokkrar.

Efri hlutinn af stofuskápnum hafði dottið fram á gólf og allt sem í honum var brotið, mannhæðahár spegill datt einnig og brotnaði, veggmyndir duttu á gólf auk allra vasa og kertastjakar sem í stofuglugganum voru. Snyrtivörur höfðu dottið á gólfið og brotnað en herbergin okkar allra sem eru á efri hæðinni sluppu nánast alveg. Ískápurinn var opin og mikið af krukkum dottið út og brotnað.. 262

Við sluppum ótrúlega vel frá þessu miðað við marga, því glerglös og allskonar veraldlegt dót er ekkert þegar kemur að mannslífum og slysum. Auðvitað þykir manni vænt um marga hluti, tengjast tilfinningum, þar á meðal vasi sem amma gaf mér þegar afi dó og útskriftargjöfin frá pabba og mömmu ásamt fleiru.

 

Eftir að vera búin að skima yfir íbúðina, set ég Cobru í bílinn og bruna út á skólavist, á leiðinni þangað brotna ég niður sjálf og græt. Þegar keyri upp að skólavistun að sé ég að Hrafninn minn byrjar að hágráta þar sem þau standa öll í hóp og bíða eftir að verða sótt og kemur hann inn í bíl til mín, var hann ofboðslega hræddur, ég sá að bæði starfsfólk og börn voru í áfalli. Ég reyni að hugga hann eins og hægt er áður en keyri af stað aftur en á þessum tímapunkti náði ég ekki í hvorki Hannes né Guðmund vegna álags á símkerfi. Leiðin liggur framhjá Nóatúni og renndi ég þangað uppað því Hannes hafði verið þar síðast þegar ég talaði við hann, en þar var starfsfólkið allt komið út undir stjórn Sigrúnar verslunarstjóra, æskuvinkonu minnar. Umferðin var stopp því búið var að loka brúnni þannig að ég fann mér hjáleið og keyrði undir brúnna. Hrafn var í áfalli og grét og grét, neitaði að fara heim og vildi bara fara í sveitina til ömmu og afa. Í þessu hringir Guðmundur frá Eyrarbakka en hann hafði verið uppá þaki og var að ath með okkur, hann var þá á leið til ömmu sinnar sem var ein heima, allt var á rúi og stúi þar eins og annarsstaðar en sem betur fer var þessi elska sem er mikil vinkona mín sótt og farið með hana í bæinn til dóttur sinnar. Guðmundur skilur ekki í því hvernig honum tókst að halda sér uppá þakinu í þessum látum en skömmu seinna kom hann svo á Selfoss.

Hrafn neitaði að fara inn í húsið og sat í bílnum í langan tíma, hann kom þó aðeins inn til að skoða aðstæður því ég vildi að hann tækist á við þetta líka, hann var svo viss um að herbergið sitt væri á hvolfi en svo var ekki. Hann var trylltur úr hræðslu hvort sem var inni eða úti og greinilega fannst honum bíllinn öruggastur en þar var Cobra líka til að verja hana gegn glerbrotum og eins finndi hún vonandi ekki alveg eins fyrir skjálftunum þar.

Anna Júlía vinkona mín kom beint úr vinnunni hingað heim því hún þorði ekki heim til sín, enda vissi hún svo sem að gæti ekki verið mikið hrunið hjá henni sem kom svo á daginn að var rétt. Er ekki mikið fyrir glingur og svoleiðis ;)

Pálmi kom úr bænum og fór aftur um hálfáttaleitið, tók Hrafn með sér sem fór til pabba síns, það var erfitt að senda hann í burtu en ég gat lítið annað gert, mér fannst ég ekki geta farið í burtu og heldur alls ekki neytt hann til að vera heima þó mig langaði að hafa hann hér og hugga. En ég veit að hann er öruggur í bænum og nær þar vonandi að dreifa huganum, enda er pabbi hans svo góður við hann að ég vissi að hann myndi taka á málunum og veita honum styrk og stuðning. Maður sat hálfdofin fram til ca átta og byrjaði þá að sópa saman glerbrotunum og taka til. Hannes var farin út með vini sínum og Guðmundur skrapp á Eyrarbakka að kíkja á sínar eignir.

Í gærkvöld og nótt voru stöðugir skjálftar en hefur þeim farið mjög mikið fækkandi í dag að mér finnst. Hannes kom svo heim og Svavar vinur hans gisti hér í nótt, Guðmundur minn kom svo skömmu á eftir þeim. Hvorki sváfum við mikið né rólega.

 

í dag er 31. maí og hafa eftirskjálftarnir verið margir, þeir eru óhuggulegir og bregður okkur alltaf jafnmikið. Við orum bara tvö heima í nótt og um helgina við Guðmundur og stóð mér ekkert á sama þegar hann fór í vinnu í  morgun kl 8. Hrafn kemur heim á morgun og veit ég að hann sefur uppí næstu nætur. Við Gummi minn ætlum að fara í bæinn eftir vinnu hjá honum í dag og breyta um umhverfi, fara í bíó eða eitthvað. Komast bara burt í smástund.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Solveig Pálmadóttir
Solveig Pálmadóttir
Business-legally-blond og rekur ferðaþjónustufyrirtækið Óbyggðaferðir ehf ásamt Unnari Garðarssyni. Viðskiptalögfræðingur frá Háskólanum á Bifröst 2006. Einnig hárgreiðslumeistari og þriggja/fjögurra stráka móðir og hundaeigandi.

270 dagar til jóla

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband